Veiðistaðir
NR. 1 DALBREIÐA:
Dalbreiða er auðveld til veiði og er gott að byrja efst móts við skiltið, vaða ekki meir en 3-4 m í meðal vatni og fikra sig niður í stenginn í rólegheitum.
Dýpi er ekki mikið á veiðisvæðinu eitthvað á annan metra í meðal vatni og botninn er grjótflákar með gróðurflákum á milli.
Oft er góð síðsumarveiði hérna en von um góða bleikju fyrripart sumars.
Lax getur stundum legið frekar utarlega á Dalbreiðunni, sérstaklega seint á haustin.
NR. 2 DALSTRENGUR:
Dalstrengur er smá röst sem myndast við lítinn tanga sem gengur út í ána.
Varast skal að vaða langt þarna en lax liggur oft rétt neðan við tangann og sáhalt niður innan við 15 m frá landi.
Gott þykir að veiða Dalbreiðuna og Dalstrenginn saman og enda í Strengnum.
NR. 3 HALI:
Hali er svæðið ofan við læk sem rennur í ána fyrir miðri vík. Þetta hefur gegnum árin oft verið einn af betri veiðistöðum á Tannastöðum.
Má segja að þetta sé eini veiðistaðurinn á Tannastöðum sem eitthvað þarf að vaða til í fluguveiði. Í meðal vatni er hægt að vaða nánast beint út á veiðistaðinn en í meira vatni þarf að vaða í nokkursskonar Z út á staðinn (sjá kort). Þá er vaðið beint út útaf Halaskiltinu og síðan sáhalt niður og svo aftur beint út en þar er grynnra en við landið.
Hér er nokkur straumur sem leynir á sér, á sólríkum og heitum sumrum er mikill gróður þegar líður á sem getur verið háll og varasamur.
Þú ert kominn á réttan stað þegar þú sérð allt veiðihúsið fyrir neðan og sumarbústað með rauðu þaki á austur bakka Sogsins fyrir ofan þig, alls ekki skal reyna að vaða lengra en þetta.
Nafnið Hali er þannig til komið að hér áður fyrr var notast við bát við veiðar á þessu svæði (fyrir tíma vaðlanna) og látin vera taug í land. Straumurinn sá til þess að halda bátnum út frá landinu, þetta var kallað að vera á Halanum.
NR. 4-5 STÓRASUND OG MIÐTANGI:
Stórasund er svæðið frá læknum niður á Miðtanga. Ekki er hægt að vaða út á þessu svæði neitt sem neinu nemur. Þarna er árbotninn nokkuð sléttur en þó með klappar brotum sem mynda bolla þar sem laxinn liggur við. Þarna getur lax legið nokkuð nálægt landi ofantil en á Miðtanganum lengra úti og þá yfirleitt lax sem er á göngu.
NR. 6-7 BREIÐAN OG EFRA-NEF:
Breiðan er efri hluti Tannastaðatangans sem svo er oft nefndur en heitir frá fornu fari Efra-nef, sem neðra veiðisvæði Tangans heitir eftir.
Tanginn er afar viðkvæmt veiðisvæði þar sem árbotninn er mishæðóttur klapparbotn með sand og sefflákum.
Á þessu svæði getur lax legið nánast upp í landsteinum í meðal vatni að morgni og ætti enginn að fara þarna með bægslagangi snemma morgunns eða eftir góða hvíld. Hættir mönnum oft til að vaða alltof langt út á tanganum og standa jafnvel í miðjum tökustöunum og reyna að kasta út í jökulskilin til að ná laxi, það er útbreiddur misskilningur að þar sé lax, nema á göngu.
Maður með einhendu hægsökkvandi línu með flugu sem hnýtt hefur verið á krók nr. 8 eða jafnvel nr. 10 gæti borið sig þannig að.
Gott er að byrja á því að vaða út á stein sem er beint framundan Breiðu skiltinu 6-7 m frá landi og skanna Breiðuna, þetta er eini staðurinn sem þarf að vaða eitthvað út á Tanganum og þó eingöngu ef þú ert með einhendu, veiði með spón og önnur veiðifæri er nóg að standa í fjöruborðinu.
Ef þú ert einn á Tanganum og verður ekki var á Breiðunni er gott að vaða rólega skáhallt niður Tangann að landi og fara aldrei utar en 3-4 m frá landi (sjá vaðlínu á korti).
Á neðri hluta Tangans sem kallaður er Efra-nef háttar þannig til að djúp gjá sker sig upp í klöppina, lax getur legið utan í gjábörmunum bæði að utanverðu og land megin en mest liggur laxinn þarna við endann og uppaf gjáarendanum.
Gjáin sést oft vel í björtu veðri þegar græni djúpvatnsliturinn sker sig frá dökka klapparlitnum.
Þegar vöxtur er í Hvítánni og sterk austanátt (Sogið er meira jafnrennsli) vill Hvítáin leggjast yfir ytri barm gjárinnar, en athugið að bergvatnið liggur undir, þá er ágætis ráð að kasta hægsökkvandi línu vel uppí strauminn, þá fer flugan með botninum undir jöklinum í bergvatninu án þess að festast.
Fremsti hluti Tangans heitir Klöppin og er hann ekki vel fallinn til veiði. Þarna er mikið dýpi allt að 11m og engir legustaðir fyrir lax.
Þarna var ágætis netalögn í gamla daga og var settur út kláfur og veitt í króknet.
NR. 8 RÉTTARSTRENGUR:
Við Réttarstreng háttar þannig til að strengurinn tekur við af grunnri leirvík beint neðan við veiðihúsið og dregur veiðistaðurinn nafn sitt af gamallri fjárrétt sem var þarna á árbakkanum og má sjá enn minjar af.
Efsti hluti veiðistaðarins er beint út frá réttinni og liggur oft lax þarna rétt utan við og nær landi eftir því sem neðar dregur. Ekki þarf að vaða neitt sem heitið getur á þessu svæði.
Á þessu svæði hafa einhverra hluta vegna meira en annarsstaðar veiðst mjög stórir laxar, en nú er mælst til að öllum stórlaxi sé sleppt.
NR. 9 FREMRA-NEF:
Fremra nef tekur við af Réttarstrengnum og er nokkuð langur leir og sandkenndur kantur með gróðri í sem er áberandi þegar líða tekur á sumarið.
Á þessu svæði veiðist alltaf eitthvað af laxi en seinni part sumars og á haustin er oft góð sjóbirtingsveiði og gefur oft vel að veiða þarna með beitu og sökku því botninn er sandkenndur og litlar festur.
Þarna ganga mörg þúsund laxar framhjá rétt utan við, sem eru á leið í árnar fyrir ofan.
Fremra-nef var oft kallað Flórída af eldri veiðimönnum þegar Sogshluti jarðarnnar var eingöngu leigður til stangaveiði. Þá var þetta svæði neðsta svæðið sem mátti veiða á stöng og þá um leið syðsta.
Þannig kom sú nafngift til ss. FLÓRÍDA.
NR. 10 EYRIN:
Eyrin var aldrei neinn sérstakur veiðistaður en með tilkomu sleppi- tjarnarinnar er von til þess að breyting verði þar á.
Vorið 2009 var sleppt um 6000 gönguseiðum hérna, 7000 stk. 2010 og um 5000 gönguseiði vorið 2011.
Merkt seiði í hverri sleppingu eru um 2000 seiði og eru veiðimenn beðnir um að fylgjast vel með hvort laxar séu merktir en það sjá menn á því að veiðiugginn er klipptur af til aðgreiningar frá öðrum laxi.
Þessar sleppingar eiga að koma öllum veiðisvæðum til góða og er því mikilsvert að skoða allan lax vel með tilliti til þessa.
Frekari leiðbeiningar eru í veiðihúsinu um meðhöndlun og töku sýna.
Frekar aðdjúpt er á allri Eyrinni en lax getur verið mjög nálægt landi og oft er góð von um sjóbirting og staðbundinn silung á þessu svæði.
NR. 11 KRÓARHÓLAR:
Þetta er veiðistaður sem oft er vanmetinn. Veiðimenn fara hingað alltof sjaldan en hér háttar til líkt og á Tanganum við veiðihúsið, nema hér gengur nokkuð hár klettahöfði út í ána sem veiðistaðurinn dregur nafn sitt af.
Veiðivon er á nokkuð stóru svæði eins og kortið sýnir en gjöfulasti veiðistaðurinn er beint útaf klettanefinu sem gengur út í ána.
Best er að bera sig þannig að við veiðar á þeim stað að standa vel fyrir ofan klettanefið inn í víkinni og láta fluguna renna niður undir smá brot sem myndast við klappargrynningu í ánni, en þar liggur oft lax fyrir neðan og utan við brotið.
Á þessum stað veiddi undirritaður einn af sínum stærstu löxum rúm 21p.
STJARNALÆKSTANGI er merktur veiðistaður en er ekki laxveiðistaður, hér er mest von um staðbundinn silung og bleikju.
Tanginn er nánast við endann á ál sem gengur upp með sunnanverðri víkinni beint uppaf veiðisvæðinu við Króarhóla með sendnum leirbotni og eru sandeyrar bæði fyrir utan og ofan Stjarnalækstangans.
NR. 12 GILSTANGI:
Gilstangi hefur oft gefið góða veiði, þarna gengur lækur út í ána sem myndað hefur tangann. Í læk þessum er töluvert seiðauppeldi.
Fyrripart sumars er þarna frekar von um silung en seinnipart sumars og á haustin er frekar von um lax.
Aðdjúpt er við Gilstangann og þarf ekkert að vaða, Sogið er hér farið að skolast töluvert af jöklinum úr Hvítá enda ertu kominn á annan kílómetra niður í Ölfusá.